Franski miðlarinn Jerome Kerviel staðhæfir nú að stjórnendur Société Générale reyni nú að gera hann að blóraböggli og hafi í raun vitað um áhættusamar fjárfestingar hans en umborið þær svo lengi sem þær skiluðu hagnaði, að sögn The Telegraph.

Franska lögreglan yfirheyrði Kerviel um helgina en hann er þó enn frjáls ferða sinna, svo lengi sem hann reynir ekki að yfirgefa Frakkland. Búið er að birta ákærudrög og segir saksóknari í málinu, Jean-Claude Marin, að Kerviel hafi hagað sér eins og „fjárhagslegur dópisti” meðan hann veðjaði grimmt á þróun hlutabréfavísitalna. Að sögn Marin stakk Kerviel engum fjármunum í eigin vasa en þráði að komast í fremstu röð verðbréfamiðlara og hækka bónusgreiðslur sínar með árangursríkum viðskiptum. Kerviel fullyrðir að hann og aðrir miðlarar bankans hafi margsinnis farið framúr fjárfestingarheimildum sínum, með vitund yfirmanna sinna.

120 milljarða í plús í desember?

Fullyrðir Kerviel að fjárfestingarstefna hans hafi verið afar árangursrík og í desember hafi ágóðinn af viðskiptunum numið sem svarar 120-130 milljörðum króna, og hafi bankinn gefið honum loforð um að hann fengi sem svarar 25 milljónum króna í bónusgreiðslur fyrir góðan árangur árið 2007.

Hann fullyrðir einnig að hafa byrjað braskið síðari hluta árs 2005, en fulltrúar bankans hafa sagt að hinir óeðlilegu viðskiptahættir hafi ekki byrjað fyrr en um ári síðar. Þá er fullyrt að bankinn hafi fengið viðvörun í nóvember sl. um gríðarlegt umfang viðskipta Kerviel, en þegar á Kerviel var gengið framvísaði hann fölsuðu skali sem sefaði áhyggjur yfirmanna hans og veitti honum þannig svigrúm til að halda viðskiptunum áfram. Forsvarsmenn Société Générale segja að óleyfileg viðskipti Kerviel hafi valdið bankanum fjárhagstjóni upp á um 500 milljarða íslenskra króna.