Donald Trump Bandaríkjaforseti lét verða af því í yfirlýsingu sem hann flutti upp úr 18:00 að íslenskum tíma í gær að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis, meira en tveimur áratugum eftir að bandaríska þingið samþykkti hana.

Síðustu daga hefur Trump rætt málið við ýmsa leiðtoga í arabaheiminum og víðar en á mánudag lét hann renna út frest til að seinka viðurkenningunni enn einu sinni. Allar helstu stjórnarstofnanir Ísrael hafa verið í borginni, utan varnarmálaráðuneytisins sem staðsett er í Tel Aviv, síðan árið 1950.

„Ég hef ákveðið að það er kominn tími til að viðurkenna opinberlega Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels,“ segir Trump samkvæmt frétt CNN, en hann hafði lofað því í kosningabaráttu sinni að halda ekki áfram að fresta gildistöku laganna eins og fyrri forsetar höfðu gert.

„Eftir meira en tvo áratugi af frestum, erum við engu nær því að ná varanlegum friðarsamningi milli Ísrael og palestínumanna.“ Jafnframt lýsti hann því yfir að Bandaríkin hyggðust flytja sendiráð sitt frá Tel Aviv til Jerúsalem, en flest ríki heims staðsetja sendiráð sín í fyrrnefndu borginni því bæði Ísrael sem og palestínska heimastjórnin gera tilkall til borgarinnar.

Þegar sáttatillögu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1947 um skiptingu breska verndarsvæðisins í Palestínu milli þjóðarbrotanna tveggja sem bjuggu á svæðinu, gyðinga og araba, var hafnað af þeim síðarnefndu lauk stríðinu sem braust út í kjölfarið, með því að borginni var skipt upp milli Ísraelsríkis og Jórdaníu.

Samkvæmt tillögunni, sem Thor Thors sendiherra Íslands hjá Sameinuðu Þjóðunum kom að, hafði verið gert ráð fyrir að borgin yrði undir hlutlausri stjórn en restinni af landinu skipt nokkurn veginn til helminga. Gyðingum var í kjölfarið meinaður aðgangur að austurhluta borgarinnar, og gilti það þangað til Ísrael náði yfirráðum í allri borginni í sex daga stríðinu sem braust út árið 1967 milli Ísraels og arabaríkjanna í kring.