Indverska flugfélagið Jet Airways hefur átt í miklum rekstrarerfiðleikum undanfarið og virðist styttast í gjaldþrot þess með hverri mínútunni sem líður. Ástandið hefur nú orðið enn verra, þar sem að félaginu mistókst að tryggja sér neyðarfjármögnun frá lánveitendum sínum. BBC greinir frá.

Í síðustu viku lagði flugfélagið niður öll alþjóðaflug sín og hefur félagið nú fellt niður öll slík flug fram til fimmtudags.

Þar til nýverið var Jet Airways næst stærsta flugfélag Indlands að teknu tilliti til markaðshlutdeildar. Nú eru hins vegar einungis sjö flugvélar eftir í flota félagsins vegna rekstrarerfiðleikanna.

Þúsundir farþega hafa orðið strandaglópar vegna erfiðleika félagsins en skuldir félagsins nema alls rúmlega 1,2 milljörðum dollara.