*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 23. apríl 2019 14:02

Jet Blue hyggst fljúga yfir hafið

Lággjaldaflugfélagið hyggst fljúga til London frá Bandaríkjunum, og gera það sem Wow air og Primera gátu ekki.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Með því að hefja áætlunarflug yfir Atlantshafið til London frá Bandaríkjunum er lággjaldaflugfélagið JetBlue að fara inn á einn erfiðasta samkeppnismarkað heims.

Er flugleiðin milli New York og London sú sem er með mest sætaframboð í heiminum, með meira en 57 þúsund sæti í boði í viku hverri. Flugferðir Jet Blue, sem verða frá bæði New York og Boston til London, munu hefjast árið 2021.

Mætir félagið þar félögum eins og British Airways, Virgin Atlantic og United Airlines, en á þessum markaði hefur fjöldi flugfélaga farið á hausinn.

Nefnir FT sem dæmi um það félög eins og Wow air og Primera, sem bæði eru gjaldþrota, sem og félög sem eiga í vanda eins og Norwegian sem sagt er tapa um 20 til 25 þúsund evrum, eða sem nemur 2,7 til 3,4 milljóna íslenskra króna á hverju alþjóðaflugi.

Neitar líkindum við Wow og Primera

Segir Robin Hayes, framkvæmdastjóri Jet Blue að félagið muni takast það sem Wow og fleiri félög hafi mistekist. „Það er eins og að bera saman krít og ost að líkja okkur saman við þessi flugfélög,“ segir hann og vísar til sérstakrar þjónustu eins og ókeypis þráðlauss nets og meira fótarýmis hjá Jet Blue.

Hyggst félagið bjóða upp á viðskiptafarrými undir vörumerki sínu Mint, auk ódýrarri skipulags, sem og nota Airbus A321LR flugvélar með einum gangi. Segir hann að það verði ódýrara að fylla þær allt árið heldur en breiðþotur, jafnvel yfir vetrarmánuðina.

„Okkar skoðun er sú að Atlantshafsflugið sé orðið að einokun þriggja stórra bandalaga.“ Þar vísar hann til Oneworld, sem inniheldur BA og American Airlines, Star Allience, sem inniheldur United Airlines og SkyTeam, sem inniheldur Delta. „Þess vegna hækka flugfargjöld. Fólk heldur að það séu 12 flugfélög en það eru í raun bara þrjú risaflugfélög.“

Segir Mark Manduca, greinandi hjá Citigroup að vélarnar séu „ástæðan fyrir því að hægt er að brjóta upp Norður Atlantshafsmarkaðinn,“ meðan stóru flugvélögin þurfi að lækka fargjaldið til að fylla breiðþoturnar, sem og þær dragi úr þörfinni á að vera með tengipunkt.

Ekki hefur þó verið greint frá því til hvaða flugvallar við London flugfélagið mun fljúga, en talið er líklegt að það verði Gatwick vegna þess hve umsetinn besti brottfaratíminn er á Heathrow.