Forstjóri danska flugfélagsins Jet time óskaði eftir að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta fyrr í dag. Frá þessu er greint á vef Túrista .

Jet time hefur sérhæft sig í leiguflugi fyrir norrænar ferðaskrifstofur og hefur meðal annars flutt viðskiptavini Bravo tours, sem er í eigu Arion banka, til sólarlanda.

Nú í sumar var ráðgert að hinar 11 Boeing 737 þotur Jet time myndu fljúga með 350 þúsund norræna farþega suður á bóginn. Vegna ástandsins sem skapast hefur vegna útbreiðslu kórónaveirunnar varð hins vegar lítið úr þeim áformum.

Jet time er í eigu Lars Thuesen en hann er jafnframt eini meðeigandi lettneska ríkisins í Airbaltic. Þar fer hann þó aðeins með tíu prósent hlut í dag en fyrir Covid-19 átti hann fimmtungs hlut í félaginu.