*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 22. október 2021 15:01

Jet2 hættir við flug til Íslands 2022

Ófyrirsjáanleiki á landamærum Íslands dregur úr nýtingu og fælir flugfélög frá landinu með tilheyrandi tapi á útflutningstekjum.

Andrea Sigurðardóttir
Flugfélagið Jet2 hættir við flug til Íslands næsta sumar og flýgur þess í stað til aðgengilegri landa.
epa

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur breska flugfélagið Jet2 hætt við að fljúga til Íslands sumarið 2022 vegna ófyrirsjáanleika hvað varðar sóttvarnatakmarkanir á landamærum Íslands.

Jet2 hefur þannig tekið um 25 þúsund sæti úr sölu fyrir næsta sumar en flugvélarnar verða nýttar á aðra áfangastaði. Til greina kemur að hefja flug aftur til landsins sumarið 2023, að því er heimildir blaðsins herma, en eins og sakir standa hafa bókanir verið góðar á alla áfangastaði félagsins utan Íslands.

SAS tilkynnti fyrir skemmstu að félagið hefði ákveðið að gera hlé á frekara áætlunarflugi frá Noregi til Íslands vegna þeirrar kröfu sem hér er gerð um framvísun neikvæðs COVID-19 prófs, en Túristi fjallaði um málið á dögunum.

Ljóst er að brotthvarf erlendra flugfélaga hefur gríðarlega mikil efnahagsleg áhrif en árið 2019 voru erlend flugfélög með 2,9 milljónir sæta af 7,3 milljóna farþegafjölda ársins. Bróðurpartur farþega erlendu flugfélaganna sem hingað fljúga sækja landið heim, en hlutfall tengifarþega, að meðtöldum sjálftengifarþegum, hefur verið undir 3%.

Samkvæmt upplýsingum um erlenda kortaveltu árið 2019 eyddu breskir ferðamenn um 205 þúsund krónum að meðaltali á meðan dvöl þeirra stóð á Íslandi. Erlend velta sem tapast vegna ákvörðunar Jet2 hleypur því að líkindum á milljörðum króna.

Ófyrirsjáanleikinn þjóðarbúinu dýrkeyptur

Ferðaskrifstofur eru um þessar mundir að skipuleggja ferðir næsta sumar og mun sá ófyrirsjáanleiki sem nú er uppi á landamærunum því ráða miklu um uppskeru ferðasumarsins 2022.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins merkja evrópsk flugfélög umtalsvert lægri nýtingu á áfangastöðum þar sem harðari sóttvarnatakmarkanir eru á landamærum í samanburði við önnur lönd. Áframhaldandi takmarkanir hér á landi gætu þannig orðið þess valdandi að Ísland verði af tugum, ef ekki hundruð milljarða útflutningstekjum á árinu 2022.

Stikkorð: Jet2