Bandaríska flugfélagið JetBlue Airways fékk nýlega aukin lendingarpláss á tveimur stórum flugvöllum í Bandaríkjunum.

Um er að ræða átta lendingarpláss (e. slots) á LaGuardia flugvelli í New York og önnur átta á Reagan National í  Washington D.C.

Hart er barist um lendingarpláss á stærstu flugvöllum Bandaríkjanna og mjög erfitt fyrir flugfélög að fá pláss sem annars eru tekin. Aukin pláss eða pláss sem losna eru iðulega boðin upp á vegum bandaríska samgönguráðuneytisins en skv. frétt Reuters greiddi JetBlue um 72 milljónir Bandaríkjadala fyrir lendingarplássin.

JetBlue er einn stærsti samstarfsaðili Icelandair en með samningi sem gerður var á milli félaganna í fyrra býðst viðskiptavinum m.a. að bóka far hjá hvoru félagi fyrir sig á sama flugnúmeri. Þannig geta viðskiptavinir Icelandair t.d. flogið með Icelandair til Bandaríkjanna og síðan áfram með JetBlue á sama flugnúmeri og notið sömu neytendaverndar. Hið sama gildir að sjálfsögðu um viðskiptavini JetBlue.

Aukin umsvif JetBlue á fyrrnefndum flugvöllum gagnast þó lítið í samstarfinu við Icelandair því félagið flýgur á hvorugan þeirra.