Samkvæmt fréttaveitu Bloomberg, ætlar flugfélagið JetBlue Airways að prufa lífræna eldsneytisblöndu. Blandan verður notuð í flugum frá flugvöllum í kringum New York. Markmið félagsins er að draga úr mengun flugvéla.

Fyrirtækið gerði nýlega 10 ára samning, sem felur í sér kaup á ríflega milljón tonnum af blöndunni frá S.G. Preston Co. Ekkert annað flugfélag hefur ráðist í jafn umfangsmiklar tilraunir til þess að draga úr útblæstri. United Continental og Southwest Airlines hafa þó verið að kanna sambærilegar tilraunir.

Samkvæmt úttekt sameinuðu þjóðanna, má rekja 2% af heildarútblæstri gróðurhúsalofttegunda til flugs. Sophia Mendelsohn, sem leiðir verkefnið hjá flugfélaginu, segir félagið þurfa að prufa sig áfram, ekki sé hægt að sofna á verðinum og bíða eftir því að sameinuðu þjóðirnar skipi flugfélögum fyrir að nota ákveðna tegund af eldsneytisblöndu.

Blandan mun samanstanda jurtaolíu og þotueldsneyti, þar sem hlutfall jurtaolíunnar verður um 30%. JetBlue mun þó ekki byrja að nota afurðina fyrr en árið 2019, en framkvæmdir standa yfir á verksmiðju S.G. Preston. Markmiðið er einnig að draga úr eldsneytiskostnaði.

United byrjaði að nota sambærilega blöndu í mars á þessu ári, en gerði einungis þriggja ára samning við Alt Air Paramount LLC. Soutwest og FedEx Corp. munu svo koma til með að nota eldsneyti frá Red Rock Biofuels LLC.