Bandaríska lággjaldaflugfélagið JetBlue tapaði 188 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur rúmlega 25 milljörðum króna. Til samanburðar hagnaðist félagið um 64 milljónir dala á sama fjórðungi árið 2021. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Flugfélaginu gekk hins vegar vel að selja flugferðir á fjórðungnum og voru tekjurnar 16% hærri en á sama tíma árið 2019. Kostnaður flugfélagsins við hvert sæti jókst hins vegar um 35% frá 2019, þar sem olíuverð hefur nærri tvöfaldast á tímabilinu.

Sjá einnig: JetBlue að kaupa Spirit fyrir 520 milljarða

Félagið hefur nýlega komist að samkomulagi um að kaupa annað lággjaldaflugfélag, Spirit Airlines, fyrir 3,8 milljarða dala. Talið er að sameinuð markaðshlutdeild félaganna tveggja verði um 9% og að flugfélagið verði það fimmta stærsta í Bandaríkjunum.

JetBlue vonast að með kaupunum geti það keppt við fjögur stærstu flugfélögin; American, United, Delta og Southwest sem eru samtals með 80% markaðshlutdeild. Óvíst er þó hvort samruninn verði heimilaður af samkeppnisyfirvöldum vestanhafs sem hafa gagnrýnt markaðsráðandi stöðu flugfélaga.