Bandaríska flugfélagið JetBlue og flugvélaframleiðandinn Airbus undirrituðu í dag viljayfirlýsingu sem felur í sér pöntun á 40 nýjum Airbus A320neo vélum.

Tilkynnt var um viljayfirlýsinguna á alþjóðlegu flugsýningunni sem nú stendur yfir í París. JetBlue er Íslendingum ekki ókunnugt enda hóf félagið nýlega umfangsmikið samstarf við Icelandair.

Ekki hefur enn verið tilkynnt hvernig hreyfla JetBlue mun velja á vélar sínar en tvær tegundir eru í boði á nýrri hönnun A320neo. Annars PurePower PW1100G frá Pratt & Whitney og hins vegar LEAP-X hreyflar frá CFM International. Þá er gert ráð fyrir vængjabörðum á A320.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær er A320neo (new engine option) nýrri framleiðsla á vinsælustu vél Airbus hingað til, A320, en þó sparneytnari og að mörgu leyti hagkvæmari. Þá er flugdrægni A320neo lengri en eldri týpunnar.

Þessu til viðbótar hefur JetBlue breytt pöntun sinni á 30 nýjum A320 vélum í A321, sem er lengri útgáfa af vélinni (A319 er síðan styttri en A320). JetBlue á pantaðar 52 A320 vélar á næstu árum en samkomulagið felur í sér að átta vélar, sem félagið átti að fá afhentar á árunum 2014-2015, verða nú afhentar árið 2017.

JetBlue er einn stærsti viðskiptavinur Airbus með A320 línuna.