JetX/Primera Air hefur tekið á leigu tvær Boeing 737-800 flugvélar sem notaðar verða í rekstri félagsins í Finnlandi og á Írlandi.

Forstjóri JetX/Primera Air, Jón Karl Ólafsson, undirritaði nýlega samning þessa efnis við ILFC (International Lease Finance Corporation), en vélarnar eru leigðar til næstu átta ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þá kemur fram að JetX/Primera Air er í dag með 6  flugvélar í rekstri og stefnir að því að vera með 10 flugvélar í rekstri strax á næsta ári.

Flestar vélarnar eru í ferðum fyrir dótturfyrirtæki Primera Travel Group, en félagið á ferðaskrifstofurnar Heimsferðir og Terranova á Íslandi auk ferðaskrifstofu á Írlandi og fimm ferðaskrifstofa á hinum Norðurlöndunum.

JetX/Primera Air flýgur nú frá Keflavík, Stokkhólmi, Gautaborg, Malmö, Ósló og Helsinki.  Fyrr á þessu ári tók félagið á móti einni B-737-800 flugvél og er nú með tvær flugvélar í rekstri út frá Dublin.  Enn er leitað tveggja flugvéla til viðbótar fyrir næsta ár, vegna nýrra verkefna í Danmörku og Svíþjóð, segir í tilkynningunni.