Jewells Chambers hefur verið ráðin til Pipars\TBWA og dótturfyrirtækis þess, netmarkaðsstofunni The Engine þar sem hún stýrir stafrænni stefnumótun.

Jewells mun leiða og móta stefnu í öllu sem viðkemur stafrænni markaðssetningu á netinu fyrir bæði innlenda og erlenda viðskiptavini Pipar\TBWA og The Engine og mun sjá um að fylgja henni síðan eftir ásamt sérfræðingum stofanna.

Jewells mun einnig sjá um að leiða og þróa stefnu í að greina árangur stafrænnar markaðssetningar fyrir viðskiptavini bæði hvað varðar sölu, þjónustu og upplifun.

Jewells starfaði sem markaðs- og stefnumótunarstjóri hjá Icelandic Mountain Guides (Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum)  árin 2016-2019. Jewells hefur mikla reynslu og þekkingu í þessum geira en áður en hún kom til Íslands starfaði hún í New York m.a. hjá ClickZ Group & SES, Opal Summits, The Glass Hammer og The White House Project.

Jewells er fædd og uppalin í Brooklyn í New York en hún flutti til Íslands fyrir 3 árum. Utan vinnu stundar Jewells fjallgöngur og heldur úti hlaðvarpi um Ísland. Jewells er gift Gunnari Erni Ingólfssyni sálfræðingi.