John F. Kennedy flugvöllurinn í New York er einn sá stærsti í heiminum en þar ferðast ekki einungis fólk, heldur einnig dýr. Nánar tiltekið ferðast yfir 70.000 dýr í gegnum flugvöllinn á ári hverju.

Til þessa hafa dýrin verið hýst hjá Vetport, dýraheimili í einkaeigu fyrir dýr á ferðinni. Innan skamms munu dýrin þó fá að búa við fádæma lúxus, en á næsta ári hyggst JFK flugvöllurinn opna 16.500 metra svæði sem einungis er ætlað dýrum. Þetta verður fyrsta flugstöðvarbyggingin í heiminum sem er eingöngu hugsuð fyrir dýr og mun bygging hennar kosta tæpa 6,5 milljarða króna.

Í raun verður um að ræða eins konar lúxushótel fyrir dýr sem starfrækt er allan sólarhringinn. Fyrir hunda verður meðal annars boðið upp á sundlaug sem er í laginu eins og bein, nuddmeðferð og „fótsnyrtingu“. Kettir munu fá sín eigin tré til að klifra í.

Hestar, kýr og önnur dýr munu einnig fá sín sérstöku svæði þar sem ýmis lúxus verður í boði. Að auki verður á svæðinu dýraspítali.

Eigendur dýranna munu þurfa að borga fyrir að geyma dýrin sín þarna. Hundaeigendur munu t.a.m. þurfa að borga 100 dollara á nótt fyrir vini sína.