Johnson & Johnson hefur samþykkt að kaupa svissneska lyfjafyrirtækið Actelion Pharmaceuticals Ltd. á 30 milljarða dali, eða andvirði 3.500 milljarða íslenskra króna.

Actelion er stærsta líftæknifyrirtæki Evrópu en með kaupunum eignast bandaríska stórfyrirtækið meðferðir við ýmsum fágætum sjúkdómum á svipuðum tíma og vinsælustu vörumerki þess standa frammi fyrir aukinni samkeppni.

J&J og Actelion hafa verið í viðræðum vikum saman og bakkaði bandaríska fyrirtækið út úr þeim á einum tímapunkti vegna hás verðs, en kom svo aftur að viðræðunum viku seinna.

Í kjölfar tilkynningar um söluna hækkuðu hlutabréf í svissneska fyrirtækinu um 21%, en J&J borgar 280 Bandaríkjadali fyrir hvert hlutabréf í Actelion, og verður það borgað í peningum, en ekki hlutabréfum.

Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs var hagnaður Actelion, sem var stofnað árið 1997 af hjónunum Jean-Paul og Martine Clozel og öðrum fyrrum starfsmönnum Roche Holding Ltd., 1,79 milljarðar svissneskra franka.

Það samsvarar um 207 milljörðum íslenskra króna. Nánar má lesa um málið á Wall Street Journal.