*

föstudagur, 23. ágúst 2019
Erlent 16. júlí 2019 13:52

J&J hagnast um 710 milljarða

Hagnaður bandaríska lyfja- og húðvörurisans Johnson & Johnson jókst um 43% á milli ára á öðrum ársfjórðungi.

Ritstjórn
Johnson & Johnson framleiðir ýmis þekkt vörumerki í bæði húðvörugeiranum og lyfjageiranum.
vb.is

Hagnaður húðvöru- og lyfjarisans Johnson & Johnson á öðrum ársfjórðungi var umfram væntingar greinenda, þrátt fyrir að sala félagsins dróst saman um 1,3%, og nam hann 5,61 milljarði Bandaríkjadala. Félagið er með höfuðstöðvar í New Jersey í Bandaríkjunum.

Það samsvarar um 710 milljörðum íslenskra króna, en bréf félagsins hafa lækkað um 0,65%, niður í 133,21 Bandaríkjadal, í viðskiptum dagsins þegar þetta er skrifað. Námu tekjurnar 2,08 dölum á hvern hlut sem er um 43% aukning frá árinu áður þegar tekjurnar á hlut voru 1,45 dalir, eða 3,95 milljarðar dala í heildina.

Jafnframt hækkaði félagið söluvæntingar sínar fyrir árið, úr sölu fyrir á milli 82 milljarða til 82,8 milljarða í á milli 82,4 milljarða dala til 83,2 milljarða dala. Alex Gorsky forstjóri og stjórnarformaður félagsins segir félagið halda áfram að koma fram með nýjar vörur sem haldi áfram að bæta líf og heilsu viðskiptavina félagsins.

Málskostnaður nálega helmingaðist

Á sama tíma tilkynnti félagið að málskostnaður félagsins vegna skaðabótamála ýmis konar út af vörum þess hefði lækkað um 41,8% milli ára, niður í 409 milljónir dala. Fyrstu sex mánuði ársins jókst málskostnaður félagsins þó úr 703 milljón dala í fyrra í 832 milljónir dala í ár.

Sala á lyfjum fyrirtækisins jókst um 1,7% á ársfjórðungnum og nam hún 10,53 milljörðum dala, sem var umfram væntingar greinenda um 10,27 milljarða dala sölu. Hins vegar dróst saman sala á leghálskrabbameinslyfi félagsins Zytiga, og blóðþynningarlyfinu Xarelto, sem og á gigtarlyfinu Remicade, vegna aukinnar samkeppni.

Hins vegar fór salan á lyfjunum Darzalex og Imbruvica fram úr væntingum og nam hún 774 milljónum dala og 831 milljón dala.