Íþróttavöruverslanakeðjan JJB Sports hefur greint frá því að hagnaður fyrir skatta á öðrum ársfjórðungi núverandi fjárhagsárs dragist enn frekar saman miðað við fyrri áætlanir. Um leið greindi félagið frá því að það hefði áhyggjur af horfum fyrir yfirstandandi ár að því er kemur fram hjá Dow Jones fréttaþjónustunni. Í nóvember síðastliðnum höfðu talsmenn félagsins greint frá því að þeir gerðu ráð fyrir að hagnaður á seinni hluta fjárhagsársins yrði óbreyttur.

Talsmenn félagsins neita því að niðurstaðan núna kalli á afkomuviðvörun sem hefði þá orðið sú önnur í röðinni en félagið sendi frá sér afkomuviðvörun í september síðastliðnum og féllu bréf í félaginu mikið í kjölfarið.

Í júní 2007 keypti Exista 29% hlut í félaginu í félagi við breska fjárfestinn Chris Ronnie, og nam kaupverðið 189 milljónum punda. Seljandinn var stærsti hluthafi og stofnandi JJB Sports, Dave Whelan, en sá er einnig eigandi breska úrvalsdeildarliðsins Wigan Athletic.