Þjóðaframleiðsla í Bandaríkjunum dróst saman um 6,3% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en að sögn Reuters fréttastofunnar má helst rekja samdrátt hagkerfisins til minnkandi einkaneyslu og minni útflutnings.

Samkvæmt tölum frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna er þetta mesti samdráttur á einum ársfjórðungi í tæp 30 ár eða frá árinu 1982. Samdrátturinn er þó minni en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir en greiningaraðilar á vegum Reuters höfðu gert ráð fyrir 6,5% samdrætti.

Nýjustu tölur sýna þó að hagvöxtur í Bandaríkjunum á árinu 2008 nam 1,1% sem er minnsti hagvöxtur frá árinu 2001 en hagvöxtur á árinu 2007 nam 2%.

Einkaneysla, sem telur um 2/3 hluta bandaríska hagkerfisins, dróst saman um 4,3% á fjórða ársfjórðungi og jókst aðeins um 1,3% á árinu.

Útflutningur dróst hins vegar saman um 23,6% á ársfjórðungnum.