Þjóðarframleiðsla á hvern íbúa á Íslandi – þegar tekið hefur verið tillit til kaupmáttar – er sú fimmta mesta innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Þjóðarframleiðsla á hvern íbúa hér á landi er 123% af meðaltali OECD. Þjóðarframleiðsla á hvern íbúa í Lúxemborg er hins vegar sú hæsta, eða 246% af meðaltali aðildarríkja OECD. Útreikningarnir byggjast á hagtölum frá árinu 2005.

Þetta kemur fram í nýjum samanburði á vergri landsframleiðslu aðildarríkja OECD, sem sýnir jafnframt að þjóðarframleiðsla á hvern íbúa hefur færst nær meðaltali OECD í mörgum aðildarríkjum; meðal annars Tyrklandi, Mexíkó, Slóvakíu, Ungverjalandi, Póllandi og Tékklandi.

Ísland, ásamt til dæmis Danmörku, Finnlandi, Bretlandi og Svíþjóð, eru í hópi fjölmargra ríkja þar sem þjóðarframleiðsla á hvern íbúa er á bilinu 100% til 124% af meðaltali OECD. Þjóðarframleiðsla á hvern íbúa í Írlandi, Lúxemborg, Noregi og Bandaríkjunum er hins vegar 125% yfir meðaltali OECD.

Á tímabilinu 2002 til 2005 lækkaði þjóðarframleiðsla á hvern íbúa á Ítalíu mikið sem hlutfall af meðtali OECD; úr því að vera 105% af meðaltali OECD árið 2002, í 95% árið 2005. Á sama tíma – einkum vegna aukinna útflutningstekna af olíuframleiðslu – fór þjóðarframleiðsla á hvern íbúa í Noregi úr 145% af meðaltali OECD, í 165%.