Steve Jobs hefur verið minnst víða um heim í kjölfar fregna af andláti hans í gær. Bill Gates, vinur og keppinautur Jobs til 30 ára, sagði fáa hafa haft jafnmikil áhrif á heiminn og Jobs og sagði það hafa verið brjálæðislega mikinn heiður að fá að vinna með honum. Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, sagðist þakklátur fyrir að hafa verið vinur og lærisveinn Jobs og þakkaði honum fyrir að sýna að hann hefði getað breytt heiminum.„Ég mun sakna þín,“ sagði Zuckerberg.

Þó hafa ekki eingöngu stórmenni í tækniiðnaðinum minnst hans og má nefna að Julia Gillard, forsætisráðherra Ástralíu, hefur minnst Jobs sem og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sem sagði Jobs í hópi fremstu frumkvöðla sögunnar. Þá hafa 35 milljónir kínverskra netnotenda minnst hans á vefnum.

Í tilkynningu frá Apple segir að „heimurinn er óendanlega mikið betri, þökk sé Steve." Steve Jobs varð 56 ára gamall.