*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 26. ágúst 2019 14:53

Jöfnuður þjónustu eykst vegna færri ferða

Þrátt fyrir færri ferðamenn jókst þjónustujöfnuður landsins vegna minnkandi ferðalaga Íslendinga.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ferðamönnum fækkaði um 19,2% á öðrum ársfjórðungi en þrátt fyrir það varð lítils háttar aukning í þjónustujöfnuði landsins að því er Hagsjá Landsbankans greinir frá. Er ástæðan sú að á sama tíma drógust einnig saman ferðalög Íslendinga erlendis.

Þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 52,1 milljarð á ársfjórðungnum, sem er um 700 milljónum króna, eða 1,4% meiri en afgangurinn á sama tíma fyrir ári. Heildartekjurnar námu 166,1 milljarð króna en heildarútgjöldin vegna innfluttrar þjónustu 114 milljarðar að því er Hagstofan greindi frá í morgun.

Dróst þjónustuútflutningurinn saman um 3,6 milljarða króna milli ára, eða 2,1%, þar af mest tekjur af farþegaflutningum með flugi. Einnig var töluverður samdráttur í útflutningi fjármálaþjónustu. Á móti kom aukning í útflutningu í fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu, annarrar viðskiptaþjónustu og byggingar- og mannvirkjastarfsemi.

Á sama tíma dróst þjónustuinnflutningurinn saman um 4,3 milljarða eða 3,6%. Þar er langumsvifamesti þátturinn ferðalag Íslendinga erlendis, og nam hann 43% á síðasta ári, eftir hækkun áranna á undan. Hlutfallið var 31% árið 2014.

Á fyrsta fjórðungi þessa árs fækkaði ferðalögum Íslendinga um 8,5% miðað við sama tímabil árið áður, en fækkunin nú á öðrum ársfjórðungi nam 2,2%. Á sama tíma nam vöxtur í innflutningi ferðalaga 8,1% en þegar horft er á hann miðað við fast krónugengi er hann neikvæður um 4,4%.