Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna fékk rúma 42 milljarða í framlög, en framlög og gjöld sjóðsins num 41,6 milljarði króna. Þetta kom fram á ársfundi sjóðsins, en þar hélt Ólöf Nordal Innanríkisráðherra erindi.

„Þegar við horfum á þessa fjárhæð sjáum við líka að það er afar þýðingarmikið að reglur Jöfnunarsjóðs um jöfnun tekna sveitarfélaga og úthlutun framlaga til verkefna séu í senn réttlátar og jafni aðstöðumun sveitarfélaga. Við þurfum að ráðstafa þessum fjármunum eins skynsamlega og okkur er unnt – eins og á reyndar við um alla fjármuni sem við höndlum með hjá ríkissjóði,“ sagði Ólöf samkvæmt fréttatilkynningu ráðuneytisins.

„Það er hins vegar ekkert sjálfgefið að við séum að öllu leyti sammála um allar reglur um úthlutun framlaga og hvaða verkefnum Jöfnunarsjóður á að sinna. Breytingar á regluverkinu hafa verið umfjöllunarefni hjá Jöfnunarsjóði og ráðgjafarnefndinni mörg undanfarin ár eins og þið þekkið og nefndir og starfshópar hafa unnið ómælt starf við að setja fram hugmyndir og reiknilíkön. Við höfum fengið ýmsar tillögur um breytt regluverk og nýja hugmyndafræði.“