Salóme Guðmundsdóttir er á miklum þeytingi þessa dagana. Hún stendur nú í því að kveðja starfsfélaga sína í Háskólanum í Reykjavík en þar hefur hún stýrt og haldið utan um skipulag Opna háskólans. Um næstu mánaðamót tekur Salóme svo við starfi framkvæmdastjóra Klaks Innovits af Kristjáni Frey Kristjánssyni, sem í byrjun mánaðar var ráðinn yfir í framkvæmdastjórn Meniga. Salóme segir nóg að gera enda svo að segja í tveimur störfum í þessu millibilsástandi þar til hún fer yfir til Klaks Innovits.

Ofan á þetta bætast áhugamálin, sem tengjast starfi og námi.

„Ég hef nýlega gengið til liðs við félagsskap LeiðtogaAuðar, en það er hópur kvenkyns stjórnenda sem hefur það að marki að efla tengslanetið og hvetja konur til að láta að sér kveða í viðskiptalífinu,“ segir hún en bendir á að helstu áhugamál sín séu hreyfing og heilsusamlegt líferni. „Ég legg mikið upp úr því að rækta sál og líkama. Ég er lærður JumpFit kennari, lauk alþjóðlegu jógakennaraprófi árið 2012 og hef verið viðloðandi þjálfun og líkamsrækt frá árinu 2007,“ segir Salóme. Fátt sé þó betra en gæðastundir með fjölskyldu og vinum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .