Þær stöllur Tinna Sverrisdóttir leik- og tónlistarkona og Lára Rúnarsdóttir tónlistarkona og jógakennari undirbúa nú það sem þær kalla súkkulaðisetur á Rauðarárstíg 1, undir merkjum nýs fyrirtækis síns Andagift Inspire. Standa þær að söfnun á Karolinafund fyrir stofnkostnaði, þar sem hægt er að kaupa ýmsa þjónustu fyrirtækisins í fyrirframgreiðslu ef fólk vill styðja við framtakið.

Lára segir að stefnt sé að því að rýmið verði opnað 11. janúar næstkomandi en þar munu þær bjóða upp á jóga, tónheilun, djúpslökun og hugleiðslu svo eitthvað sé nefnt. „Andagift er hreyfing í átt að andlegri velferð en grunnhugmyndin er að skapa rými sem verður eins konar griðarstaður til að fara inn í andlega iðkun og leita inn á við,“ segir Lára en jafnframt hyggjast þær bjóða fyrirtækjum og stofnunum að þær komi inn með viðburði og einkatíma.

„Sérstaða okkar er sú að leiðandi í allri iðkuninni verður notkun á súkkulaði. Þess vegna heitir þetta súkkulaðisetur en við erum að nota hreint kakó beint frá Gvatemala. Tímarnir byrja á því að þú færð afhentan kakóbolla, en þetta er sykurlaust og algerlega hreint súkkulaði sem kemur beint frá plöntunni. Tinna fór til Gvatemala þar sem hún var í tvo mánuði að læra allt um súkkulaðið á meðan hún starfaði við að vinna kakóplöntuna og aðstoðaði við að búa til súkkulaðið í því formi sem við notum það.“

Lára segir heilmikil fræði vera á bak við notkun súkkulaðsins í iðkuninni sem og löng hefð. „Andagift er hugsuð sem hreyfing til að opna hjartað en þessi kakóplanta hefur verið notuð í mörg þúsund ár af innfæddum Mayum til að gera nákvæmlega það. Hún er stútfull af serótóni, það eru mikil andoxunarefni í þessu og mikið af magnesíum þannig að þú finnur fyrir slökunarástandinu. Kakóplantan er ein næringarríkasta plantan sem við finnum. Með þessum áhrifum á virkni líkamans ertu fyrr kominn í tengingu við sjálfan þig.“

Hugmyndin að setrinu kviknaði svo í framhaldinu að hún fór að mæta í einkatíma sem Tinna bauð upp á eftir að heim frá Gvatamala var komið. „Ég varð svona hrikalega hrifin og tók það skref að segja upp vinnunni minni viku eftir að ég fór til hennar. Mér finnst þetta hjálpa manni við að finna sína leið í lífinu,“ segir Lára sem hafði síðan samband við Tinnu um að gera eitthvað saman.

„Ég er jógakennari og hef verið að kyrja möntrur sem er svona hluti af kundalini jógafræðum og fórum við í kjölfarið að halda saman súkkulaðimöntrukvöld þar sem við buðum upp á þetta kakó og fórum inn í hugleiðslur og enduðum á að kyrja möntrur. Það bara sló í gegn, við fengum mjög marga þátttakendur. Í kjölfarið fórum við að vinna með alls konar hugmyndir og var niðurstaðan súkkulaðisetrið. Við vildum koma með einhvers konar svar við öllum þessum byltingum og því sem hefur verið í gangi í samfélaginu. Það hefur verið mikið rót og óvissa, þó það sé eitthvað fallegt við þetta líka. Eitt af svörunum fannst okkur vera að bjóða upp á hreyfingu og rými þar sem fólk getur heilað sig með meiri sjálfsmildi og sjálfsást.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .