Tíu franskir jógúrtframleiðendur hafa verið sektaðir af þarlendum samkeppnisyfirvöldum fyrir að hafa yfir sex ára skeið tekið þátt í verðsamráði. Ellefu fyrirtæki, sem samanlagt framleiða um 90% af allri jógúrt í Frakklandi, höfðu með sér samráð á verðlagningu á jógúrt sem verslanakeðjur seldu undir eigin vörumerkjum. Samtals nema sektirnar 192 milljónum evra, andvirði um 28 milljarða króna. Kemur þetta fram í frétt BBC.

Ellefta fyrirtækið, Yoplait, kom upp um samráðið og verður því ekki sektað. Einhver fyrirtækjanna ætla að áfrýja sektarákvörðuninni.

Verðsamráðið var ítarlegt, en á tímabilinu 2006-2012 ákváðu fyrirtækin saman hvernig og hvenær ætti að hækka verð á jógúrt til verslana og um hversu háar fjárhæðir.

Danone, stærsti jógúrtframleiðandi í heimi, framleiðir ekki vörur sem verslanir geta selt undir eigin vörumerki og tók því ekki þátt í samráðinu.