*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 24. maí 2013 18:27

Johann Rönning, Miracle og Vinnuföt eru fyrirtæki ársins

Fyrirtækið Servida er hástökkvarinn í árlegri könnun VR. Sérstakur saksóknari landaði toppsætinu þriðja árið í röð.

Ritstjórn

Johann Rönning, Miracle og Vinnuföt eru Fyrirtæki ársins 2013 samkvæmt niðurstöðum viðamikillar könnunar meðal félagsmanna VR og fjölda annarra starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Þá var embætti sérstaks saksóknara fyrirtæki ársins í flokki stórra stofnana.

Þetta var þriðja árið í röð sem embættið hampar titlinum. Fyrirtækið Servida bætir sig mest á milli ára og fær því titilinn Hástökkvari ársins 2013. Johann Rönning var valið Fyrirtæki ársins í hópi stærri fyrirtækja þar sem starfsmenn eru að lágmarki fimmtíu og er þetta annað árið í röð sem Rönning sigrar í þessum stærðarflokki.

Miracle er Fyrirtæki ársins í hópi fyrirtækja með 20 – 49 starfsmenn og Vinnuföt í hópi fyrirtækja þar sem starfsmenn eru færri en tuttugu. 

Fram kemur í tilkynningu að könnun VR mælir viðhorf starfsmanna til átta lykilþátta á sínum vinnustað; trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjara, vinnuskilyrða, sveigjanleika vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd og ánægju og stolts af vinnustað. Einkunn er gefin fyrir hvern þátt frá einum og upp í fimm og saman mynda þær svo heildareinkunn fyrirtækisins.

Þetta er 16. árið í röð sem VR velur Fyrirtæki ársins á grundvelli könnunar meðal félagsmanna.

Nánar um málið á vef VR

 

  

Stikkorð: VR Fyrirtæki ársins