Jóhann Steinar Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ÍV sjóða hf.

Jóhann Steinar hefur víðtæka reynslu af innlendum fjármálamarkaði. Undanfarin 4 ár hefur hann starfað við eignastýringu hjá Stapa lífeyrissjóði.

Á árunum 2008 til 2011 starfaði Jóhann Steinar við fjárfestingar og viðskiptaþróun hjá Tryggingamiðstöðinni. Þar áður starfaði hann í markaðsviðskiptum, áhættu- og fjárstýringu hjá Stoðum og Straumi fjárfestingabanka.

Jóhann Steinar er með MSc gráðu í viðskiptafræði frá Lunds Universitet og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Tekur hann við starfinu af Jóni Helga Péturssyni, sem mun taka við starfi Forstöðumanns rekstrarsviðs Íslenskra verðbréfa, móðurfélags ÍV sjóða. Íslensk verðbréf rekur 11 verðbréfa- og fjárfestingarsjóði, með um 40 milljarða króna í stýringu. Félagið er með höfuðstöðvar á Akureyri.