Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur ráðið Jóhann Gunnar Jóhannsson sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs fyrirtækisins.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ölgerðinni. Jóhann Gunnar starfaði áður sem fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Icelandic Group en þar á undan starfaði hann meðal annars hjá Bakkavör og Íslenskri erfðagreiningu sem forstöðumaður á fjármálasviði.

Haft er eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar, að það sé fengur að fá mann eins og Jóhann Gunnar í þetta krefjandi starf.

„Jóhann Gunnar er löggiltur endurskoðandi og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Jóhann Gunnar, sem hefur störf á næstu vikum, tekur við starfinu af Kristjáni Elvari Guðlaugssyni sem verið hefur framkvæmdastjóri frá árinu 2006 og í eigendahópi félagsins frá 2007, en hann sagði starfi sínu lausu fyrir stuttu,“ segir að lokum.