Jóhann Kristjánsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Íslandsferða, dótturfyrirtækis FL Travel Group, af Stefáni Eyjólfssyni, segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu

Íslandsferðir er leiðandi í framleiðslu og sölu pakkaferða og móttöku á erlendum ferðamönnum til Íslands

Jóhann Kristjánsson er fæddur 1965 í Reykjavík. Hann starfaði hjá ferðaskrifstofunni Hekla Rejser í Kaupmannahöfn á árunum 1995-6. Eftir að hann kom heim frá námi árið 1997 vann hann sem framkvæmdastjóri hjá tölvufyrirtækinu Kuggi ehf.

Árið 1998 hóf hann störf hjá Íslandsbanka og sá um viðskipta- og vöruþróun bankans á Netinu. Síðla árs 2000 hóf hann störf hjá Skýrr hf. og hefur starfað þar undanfarin ár sem yfirmaður viðskiptaþróunar fyrirtækisins.

Hann lauk viðskiptafræðiprófi frá HÍ af endurskoðunarsviði árið 1992 og meistaraprófi í alþjóðaviðskiptum og stefnumótun frá Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar, CBS, árið 1997.