Jóhann Óli Guðmundsson, eigandi Wireless Broadband Systems (WBS), hefur keypt allt hlutafé í Hive, en áður hafði hann einnig keypt öll hlutabréf í fjarskiptafélögunum Atlassíma og eMax. Félögin fjögur, sem öll hafa verið brautryðjendur á sínu sviði í fjarskiptaþjónustu, verða sameinuð undir merkjum Hive að því er segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að hið nýja félag mun einbeita sér að svokallaðri fjórðu kynslóð þráðlausra fjarskipta (4G) þar sem öll þjónusta, svo sem sími, sjónvarp, hvers konar nettengsl og myndveitur (e. Video-on-Demand), er veitt á IP-formi. Farsímar fyrir fjórðu kynslóðina eru í hraðri þróun og og standa vonir til að þeir komi á neytendamarkað undir lok þessa árs segir í tilkynningu

WBS hefur á undanförnum árum unnið að tækniþróun fyrir fjórðu kynslóðina bæði hér á landi og í Þýskalandi. Í þeirri vinnu hefur verið byggt á íslenskri hátækniþekkingu og hugviti með mikla áherslu á hraða og magn í gagnaflutningi. Áframhaldandi sókn hins sameinaða fyrirtækis inn á íslenskan markað mun jöfnum höndum byggjast upp á að efla og bæta núverandi þjónustu við hátt í tuttugu þúsund viðskiptavini og ryðja 4G nýjungum braut með nýjum tæknilausnum og lækkuðu verði. Í kjölfarið er stefnan sett á markaðsfærslu kerfisins á alþjóðamarkaði.

Þróunarstarf WBS á undanförnum árum hefur einkum verið unnið í Þýskalandi og meðal annars verið fólgið í rekstri tilraunakerfa í nokkrum bæjum þar í landi á síðustu árum. Á Íslandi hafa tilraunakerfi jafnframt verið rekin bæði í þéttbýli og dreifbýli á sl. 12 mánuðum með góðum árangri. Allur gagnaflutningur fyrir farsíma, heimasíma, internettengingar, sjónvarpsrásir og myndveitur fer fram í loftinu og verða kaplar inn í hús fyrir vikið með öllu óþarfir. Sem dæmi um byltingarkennda tækni á bak við farsíma fjórðu kynslóðarinnar umfram þá þriðju má nefna að burðarmagn gagna og hraði mun u.þ.b. tífaldast á milli kynslóða og geislun minnkar allt að hundraðfalt. Jafnframt verður unnt að gjörbreyta verðlagningu og hefðbundinni uppbyggingu verðskrár fyrir hina ólíku þjónustuþætti.

HIVE hefur á síðustu árum haldið uppi öflugri samkeppni á internet- og símamarkaði hérlendis og verið leiðandi aðili í lækkun fjarskiptakostnaðar, auknum internethraða og bættri þjónustu. Nýlega kom fram að viðskiptavinir Hive eru ánægðustu viðskiptavinir netfyrirtækja á Íslandi 2006 samkvæmt mælingu í íslensku ánægjuvoginni. Atlassími hefur verið brautryðjandi í lækkun símakostnaðar fyrirtækja og heimila, jafnt innanlands sem til útlanda og eMax varð fyrst íslenskra fyrirtækja til að bjóða þráðlausa internettengingu og aðra netþjónustu í dreifbýli. Með sameinuðum rekstri þessara félaga og nýtingu fjórðu kynslóðar tækni WBS er orðið til nýtt afl sem er staðráðið í að ryðja nýjungum braut jafnt á íslenskum sem alþjóðlegum fjarskiptamarkaði.