Hugbúnaðar- og ráðgjafafyrirtækið Cubus hefur ráðið til starfa Jóhann Örn B. Benediktsson en hann mun starfa sem ráðgjafi í árangursstjórnun og áætlanagerð fyrirtækja. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Jóhann hefur starfað síðustu fjögur ár sem fjármála- og skrifstofustjóri hjá Lögmönnum Laugardal og Fasteignasölunni Miðborg. Samhliða því var hann meðeigandi að nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfði sig í sýndarveruleika. Einnig starfaði Jóhann sem sjálfstæður ráðgjafi í fyrirtækjarekstri og fjárfestingum og kenndi fjármál fyrirtækja, fjárhags- og rekstrarbókhald.

Jóhann Örn útskrifaðist með MBA gráðu frá Háskóla Íslands árið 2018 og er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla. Hann lagði einnig stund á M.Sc. nám í stjórnun alþjóðafyrirtækja (e. International Management) í Toulouse School of Management í Frakklandi.

„Við hjá Cubus sérhæfum okkur í viðskiptagreind og áætlanagerð. Við höfum lengi unnið í gagna- og bakendavinnslu fyrir alls kyns fyrirtæki. Nú höfum við ákveðið að aðlaga stefnu okkur að auknum kröfum viðskiptavinarins og verða sýnilegri í framendavinnslu. Við bjóðum fjármála- og framkvæmdastjórum aukna aðstoð við að ná tökum á rekstrargögnunum til að taka upplýstari ákvarðanir. Jóhann er því frábær viðbót við teymið okkar hjá Cubus og mun leiða framþróun fyrirtækisins í ráðgjafastörfum í fyrirtækjarekstri og áætlanagerð," segir Stefán Rafn Stefánsson, einn af eigendum Cubus, í tilkynningunni.