Johan Rönning hefur hlotið Jafnlaunavottun VR en þetta er fimmta fyrirtækið sem hlýtur vottunina. Fram kemur í tilkynningu frá VR að Johann Rönning hafi þar með fengið staðfestingu á því að búið er að kerfisbinda launaákvarðanir, koma upp jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum ÍST 85 jafnlaunastaðalinum og verði nú kerfisbundið fylgst með því að ekki sé verið að mismuna starfsfólki í launum sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf hjá fyrirtækinu. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, og Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri VR, afhentu Haraldi Líndal, forstjóra Johan Rönning vottunarskírteinið.

Johann Rönning hefur tvívegis verið valið Fyrirtæki ársins í flokki stórra fyrirtækja, samkvæmt ítarlegri vinnustaðakönnun VR. Einnig eiga þau 80 ára stórafmæli í ár og hafa því mörgu góðu að fagna um þessar mundir.

Jafnlaunavottun VR var kynnt þann 5. febrúar sl. og er ætluð fyrirtækjum og stofnunum sem vilja sýna svart á hvítu að launastefna þeirra og mannauðsstjórnun mismuni ekki konum eða körlum.  Einnig getur vottun af þessu tagi bætt starfsanda, styrkt ímynd og jafnvel gert fyrirtækjum auðveldara um vik að fjármagna sig.  Á þriðja tug fyrirtækja og stofnana hafa nú þegar sótt um og má búast við að fleiri bætist í hópinn innan skamms. Á næstu vikum er þess vænst að fleiri þátttakendur ljúki vottunarferlinu og sýni fram á að leiðréttingar hafi verið gerðar þar sem þeirra er þörf. Þau fyrirtæki og stofnanir sem skrá sig til þátttöku skuldbinda sig til þriggja ára í senn. Nánari upplýsingar um skráningar- og vottunarferlið má finna á vefsvæðinu http://jafnlaunavottun.vr.is .

Bogi Þór Siguroddsson var í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .