Jóhann Steinar Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Hann tekur við starfinu af Inga Björnssyni sem hefur látið af störfum fyrir sjóðinn. Þetta kemur fram í frétt á vef sjóðsins.

Jóhann Steinar hefur víðtæka reynslu af innlendum fjármálamarkaði og þekkir vel til starfsemi Stapa því á árunum 2012-2016 starfaði hann við eignastýringu hjá sjóðnum. Frá árinu 2016 hefur Jóhann Steinar verið framkvæmdastjóri ÍV sjóða hf. Á árunum 2008 til 2011 starfaði hann við fjárfestingar og viðskiptaþróun hjá Tryggingamiðstöðinni en þar áður í markaðsviðskiptum, áhættu- og fjárstýringu hjá Stoðum og Straumi fjárfestingabanka.

Jóhann Steinar er með MSc gráðu í viðskiptafræði frá Lunds Universitet og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Einar Ingimundarson, lögfræðingur Stapa, mun gegna starfi framkvæmdastjóra þar til Jóhann Steinar kemur til starfa.