Jóhann Hannesson hefur verið ráðinn sem forstöðumaður viðskiptatengsla hjá Debitum og Gjaldskila. Þá mun hann einnig bera ábyrgð á markaðs- og sölumálum. Þetta kemur fram í tilkynningu. Debitum-Gjaldskil er alhliða innheimtufyrirtæki sem er dótturfélag Gjaldskila ehf.

Jóhann kemur til starfa frá Inkasso þar sem hann starfaði sem sölustjóri innheimtulausna. Hann er með BA-próf í mannfræði frá Háskóla Íslands en hefur auk þess talsverða reynslu af sölu- og markaðsmálum auk innheimtulausna.

„Það eru ótrúlega spennandi tímar fram undan í nýju starfi. Sérstaklega er ánægjulegt að vera í framlínu fyrirtækis í mikilli sókn, með sterkt bakland og skýr markmið. Innheimtumarkaðurinn hefur lengi verið einsleitur og fyrirsjáanlegur, því er skemmtilegt að koma að verkefni þar sem nýjungar og ferskari nálgun fær að ráða. Ég vil því hvergi annars staðar vera á þessum tímapunkti, að geta boðið kröfuhöfum upp á hagkvæmar lausnir í kröfustjórnun og um leið að fullnýta þær tæknilegu lausnir sem í boði eru,“ er haft eftir Jóhanni í tilkynningunni.