Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sögðu á blaðamannafundi í stjórnarráðinu í morgun að engar þreifingar væru á bakvið tjöldin við Hollendinga og Breta um að breyta Icesave-samningunum.

Jóhanna lagði áherslu á að málið væri nú til umfjöllunar á Alþingi og bætti við: „Ég held að það væri ekki heppilegt að við færum að beita okkur núna á þessu stigi  fyrir því að tala við einhverja æðstu menn til að ná fram breytingum. Við verðum að sjá hvernig Alþingi vill afgreiða þetta mál áður en að þeim punkti gæti komið."

Frumvarið um Icesave-ríkisábyrgðina er nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis og verður það í fyrsta lagi afgreitt úr nefnd til annarrar umræðu í næstu viku.

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu er meðal annars rætt um það í þinginu að setja fyrirvara við Icesave-samningana, til að mynda fyrirvara við endurskoðunarákvæði þeirra.

Lögmenn sem Viðskiptablaðið hefur rætt við hafa flestir haldið því fram að með því að samþykkja Icesave-ríkisábyrgðina með fyrirvörum sé Alþingi í raun að fella hana.