Fengnir verða bestu lögmenn úr röðum beggja fylkinga til þess að verja og ákvarða málstað Íslendinga í Icesave-deilunni. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðhera í munnlegri skýrslu sem hún flutti á Alþingi í dag. Þar var niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins til umræðu.

Jóhanna sagði að svar til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA,  hafi verið tilbúið um nokkurn tíma. Nú verði farið yfir það að nýju. ESA tilkynnti í gær að Ísland hafi tvo mánuði til þess að svara áliti stofnunarinnar.

Þá sagði Jóhanna að allt verði gert til þess að tefla fram gildum rökum, máli Íslands til stuðnings. Mikilvægt sé að allir flokkar standi saman í málinu. Skipaður verður samráðshópur um málið þar sem bæði stjórn og stjórnarandstaða munu eiga sæti.

Jóhanna ítrekaði að niðurstaða kosninganna hafi ekki áhrif á heimtur úr þrotabúi Landsbankans. Vonir standi til að greiðslur hefjist til kröfuhafa í sumar.