Friðrik Sophusson, sem var fjármálaráðherra frá árinu 1991 til 1998 er í ítarlegu í viðtali í 25 ára afmælisriti Viðskiptablaðsins sem var að koma út. Friðrik segir að á síðasta fjórðungi síðustu aldar hafi gífurlegar viðhorfsbreytingar áttu sér stað í vestrænum lýðræðisríkjum.

„Róttækar frjálshyggjuhugmyndir voru að ryðja sér til rúms og hreyfðu við þeirri stöðnun, sem hafði verið í stjórn- og efnahagsmálum frá stríðslokum. Á kreppuárunum milli heimsstyrjaldanna og í kjölfar hennar jukust ríkisafskipti verulega og það tók langan tíma að vinda ofan af því ástandi. Friðrik von Hayek fékk Nóbelsverðlaunin 1974 og Milton Friedman árið 1976. Þeir höfðu báðir mikil áhrif á Margréti Thatcher , sem varð forsætisráðherra Bretlands 1979.

Hér á landi höfðu þessir fersku vindar mikil áhrif eins og sést á ræðum og ritum hagfræðinganna Jónasar Haralz og Ólafs Björnssonar. Í röðum ungra sjálfstæðismanna var unnið að stefnu um samdrátt ríkisafskipta undir kjörorðinu Báknið burt á árunum 1975- 77. Nokkrir þeirra sátu síðan saman í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar frá 1991. Fjölmargt ungt frjálslynt fólk tók þessum hugmyndum vel og barðist fyrir framgangi þeirra. Ekki er á neinn hallað, þegar sagt er að þáttur Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar hafi haft afar mikil áhrif enda var hann óþreytandi við að boða fagnaðarerindið í ræðu og riti.

Á níunda áratugnum gekk fremur hægt að koma frjálshyggjuhugmyndunum í framkvæmd. Innan Sjálfstæðisflokksins voru efasemdaraddir. Ýmsir töldu þessar hugmyndir of róttækar og þær gætu fælt kjósendur frá flokknum. Flokkurinn átti einnig við innanhúsvanda að etja eins og birtist í myndun ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen í febrúar 1980 og klofningsframboði Alberts Guðmundssonar vorið 1987. Þrátt fyrir erfiðar formannskosningar skömmu fyrir alþingiskosningarnar 1991, gekk flokkurinn einhuga og sterkur til þeirra kosninga og var tilbúinn til að gera róttækar breytingar í efnahags- og ríkisfjármálum.“

Jafnaðarflokkar og markaðsvæðing

Að sögn Friðriks hafði frjálshyggjubylgjan ekki einungis áhrif á stefnu og viðhorf borgaralegra flokka.

„Jafnaðarmenn í Vestur-Evrópu tóku að verulegu leyti undir nauðsyn þess að gera breytingar. Órækasti vitnisburðurinn um breytingar, sem höfðu átt sér stað meðal jafnaðarmanna, var þegar Tony Blair og breski Verkamannaflokkurinn sigruðu í kosningunum í Bretlandi árið 1997 undir kjörorðinu New Labour , þar sem markaðsvæðingu var fylgt og ekki reynt að snúa ofan af þeim breytingum, sem Íhaldsflokkurinn undir forystu Thatcher hafði komið á. Áhrifin voru einnig augljós á Norðurlöndunum, þar sem jafnaðarmenn endurmátu stöðu sína og stefnu í ljósi nýrra viðhorfa."

Jón Baldvin hallaði sér að Jóni Sigurðssyni

„Hér á landi mátti greina sömu þróun hjá Alþýðuflokknum undir forystu Jóns Baldvins, sem gekk af fullri einurð til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um myndun Viðeyjarstjórnarinnar. Það verður þó að segjast að einn þingmaður Alþýðuflokksins gekk ekki í sama takti og hinir en það var Jóhanna Sigurðardóttir, varaformaður flokksins. Maður tók auðvitað eftir því að á þessum tíma hallaði Jóna Baldvin sér miklu meira að Jóni Sigurðssyni viðskiptaráðherra en félagsmálaráðherranum, Jóhönnu. Eins og margir muna endaði þetta með því að Jóhanna sagði sig úr Alþýðuflokknum eftir fræga ræðu þar sem hún sagði „minn tími mun koma“ og stofnaði Þjóðvaka. Það gerði það að verkum að eftir kosningarnar 1995 hafði Viðeyjarstjórnin bara eins manns meirihluta á þingi og niðurstaða okkar sjálfstæðismanna þá var að sá meirihluti væri of naumur og því mynduðum við stjórn með Framsóknarflokknum.

Í Framsóknarflokknum höfðu orðið breytingar í forystuliðinu fyrir kosningarnar 1995. Steingrímur Hermannsson, formaður flokksins og mesti áhrifamaðurinn á níunda áratugnum, lét af formennsku og í hans stað kom Halldór Ásgrímsson. Með þessari breytingu varð viðhorfsbreyting meðal forystumanna Framsóknarmanna eins og best sást í afstöðunni gagnvart þátttökunni í EES, þar sem Steingrímur og nokkrir aðrir greiddu atkvæði gegn en Halldór og fylgismenn hans sátu hjá. Þess hópur innan Framsóknarflokksins hafði fullan skilning á því sem við vorum að gera. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar var tekið undir þau markmið að útrýma fjárlagahallanum og keyra á nýskipan í ríkisrekstri.“

Viðtalið má lesa í heild í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið .