Það blasir við að óvíða í Evrópu er hagvöxtur jafn mikill og hér á landi nú um stundir. Aðeins Eistland og Pólland státa af meiri hagvexti en Ísland á fyrri hluta þessa árs. Víða um heim er eftir þessum árangri tekið.

Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í aðsendri grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. „Hagstofan metur að hagvöxtur á þessu ári verði 2,8% og sér svipaðan hagvöxt í sínum kortum næstu árin. Hagstofan er varfærin í sínum spám og tína má ýmislegt til sem gæti lagst á sveif með meiri hagvexti, þar er einkum vísað til meiri fjárfestinga og afla. Þróun í alþjóðaefnahagsmálum gæti á hinn bóginn valdið okkur búsifjum, bæði er varðar verð á útflutningsafurðum en einnig erlenda fjárfestingu,“ segir í greininni.

Jóhanna segir bjart vera yfir þjóðlífinu og horfur allgóðar. Ástæða sé þó til að hafa áhyggju af þróun alþjóðaefnahagsmála sem gætu sett strik í reikninginn. „En umheimurinn er ekki eina ógnunin. Barlómur og bölsýni stjórnarandstöðu og áhangenda þeirra í hagsmunasamtökum er efnahagsvandamál. Söngur þessa karlakórs verður góðu heilli sífalskari eftir því sem óyggjandi hagtölur sýna skýrari árangur,“ segir í lok greinarinnar.

Grein Jóhönnu Sigurðardóttur .