Ríkisstjórnin hefur áhyggjur af þróun mála í neðanjarðarhagkerfinu og vinnur að því hvernig taka megi á því, að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Það var Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, sem spurði ráðherra að því í sérstökum umræðum um stöðu atvinnumála á Alþingi hvort skattastefna ríkisstjórnarinnar hafi valdið því að svört atvinnustarfsemi hafi aukist.

Unnur Brá spurði Jóhönnu m.a. að því hvort ríkisstjórnin hafi uppi áform til framtíðar að lækka skatta á fyrirtæki svo þau geti betur fótað sig og náð að fjölga störfum.

Jóhanna svaraði því til að ríkisstjórnin hafi gripið til fjölda ráða, m.a. hafi veiðileyfagjald gert stjórninni kleift að ýta fjárfestingarleiðinni úr vör. Gjaldinu sé ætlað að standa undir tvöföldun á framlögum til rannsókna í tækniþróun, samgöngubótum og flýta gerð jarðganga með tilheyrandi störfum.

„Ríkisstjórnin hefur gert mjög mikið. Fjárfestingaráætlunin hefði ekki verið til ef við hefðum ekki náð veiðigjaldinu fram. Við hefðum hvorki séð nýjan Herjólf eða Landeyjarhöfn og göng verða að veruleika fyrr en áætlað var,“ sagði hún.