Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ítrekaði á blaðamannafundi í stjórnarráðinu í gær að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði aldrei verið með „neinar kröfur eða hótanir í mín eyru um að þetta gangi saman Icesave-samningurinn og endurskoðunaráætlunin," sagði hún.

„Þeir hafa hins vegar sagt að það myndi ekki hjálpa til ef það væri ekki búið að ganga frá Icesave-samningnum," bætti hún við, þegar hún var spurð út í þessi mál.

Jóhanna var spurð að því á Alþingi 13. júlí hvort AGS hefði sett það sem skilyrði að Icesave-samningarnir  yrðu að vera afgreiddir frá Alþingi áður en endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda gæti farið fram. Jóhanna sagði þá einnig að svo hefði ekki verið. AGS hefði ekki verið með neinar hótanir eða kröfur í þá veru.

Aldrei sagt slíkt í hennar eyru

Þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins spurði Jóhönnu á blaðamannafundi í stjórnarráðinu í gær hvort nú væri ekki komið á daginn að slíkar kröfur hefðu verið uppi svaraði hún því til, sem fyrr sagði, að „þeir haf[i] aldrei í mín eyru orðað það sem kröfu eða því síður hótun," svo vitnað sé orðrétt í forsætisráðherrann.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á sama blaðamannafundi að starfsmenn AGS hefðu verið allir að vilja gerðir til að ná endurskoðuninni fram eftir helgi, „en pólitíkin réði að lokum," bætti hann við.

Hann sagði sömuleiðis þegar hann svaraði fyrirspurnum blaðamanna að ekki væri hægt að orða það sem svo að AGS væri að beita sér í þágu Breta og Hollendinga vegna Icesave-málsins heldur „væru aðrir að trufla starf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins," eins og hann vildi fremur orða það.

Sjá nánar umfjöllun um blaðamannafundinn í stjórnarráðinu hér og hér og hér .