Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, heyrði fyrst af aðkomu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) að Icesave málinu fyrir EFTA dómstólum í fréttum.

Þetta sagði Jóhanna í viðtali á Rás 2 fyrir stundu en sem kunnugt er hefur framkvæmdastjórn ESB óskað eftir því að fá að vera aðili að málinu gegn Íslandi.

Aðspurð sagði Jóhanna að sér fyndist alls ekki ósvífið – og þvert á móti mjög eðlilegt – að ESB vilji hafa bein afskipti af málinu gegn Íslandi. Hún sagði að hér væri um stórt mál að ræða og því eðlilegt að ESB vilji taka þátt.

Þá var Jóhanna spurð út í orð Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um að ESB vilji fá Ísland á hnjánum inn í sambandið. Hún sagðist algjörlega ósammála Ögmundi og bætt við að henni fyndist þetta undarlegt orðalag hjá honum. Þá var Jóhanna spurð hvort að til greina kæmi að setja umsókn Íslands að ESB í bið á meðan málaferlunum stendur, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins hefur lagt til. Hún sagði Sigmund Davíð bara vera í pólitík og að ekki kæmi til greina að setja umsóknina í bið.