Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Almannaróms, miðstöðvar um máltækni. Að Almannarómi standa háskóla- og rannsóknastofnanir, fyrirtæki og félagasamtök. Meginhlutverk Almannaróms er að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í hinu stafræna umhverfi og mun framkvæmdastjóri meðal annars bera ábyrgð á gerð samninga við stærstu tæknifyrirtæki heims og úthlutun fjármagns til rannsókna og innviðauppbyggingar á sviði máltækni.

Undanfarin ár hefur Jóhanna Vigdís starfað sem framkvæmdastjóri atvinnu- og alþjóðatengsla hjá Háskólanum í Reykjavík og staðið fyrir uppbyggingu atvinnulífstengsla HR. Áður var hún forstöðumaður markaðssviðs HR. Jóhanna Vigdís hefur jafnframt gegnt stjórnendastöðum við Listahátíð í Reykjavík, hjá Straumi fjárfestingarbanka, Deloitte og Borgarleikhúsinu.

„Það er okkur hjá Almannrómi mikið fagnaðarefni að fá Jóhönnu til liðs við okkur. Í störfum sínum hjá HR hefur Jóhanna Vigdís sýnt að hún nær árangri við að byggja upp alþjóðleg tengsl og að treysta sterk tengsl við atvinnulíf og stofnanir á Íslandi. Einnig mun reynsla hennar af rannsóknum og háskólaumhverfi nýtast einkar vel til að leiða og móta þetta mikilvæga verkefni,“ segir Stefanía Guðrún Halldórsdóttir stjórnarformaður Almannaróms.

Jóhanna Vigdís lauk AMP gráðu hjá IESE Business School í Barcelóna árið 2015, MBA námi frá HR 2005 og meistaraprófi frá Háskólanum í Edinborg árið 2003. Jóhanna Vigdís útskrifaðist með BA gráðu í bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1998.