Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra mun leiða annan lista Samfylkingarinnar í Reykjavík en hún varð efst í prófkjöri flokksins í gær.

Jóhanna hlaut 2.766 atkvæði í fyrsta sæti eða um 78% atkvæða. 3.543 greiddu atkvæði í prófkjörinu en að kjörskrá voru 7.743 og var kjörsókn því um 45,8%.

Össur Skarphéðinsson lenti í öðru sæti með 1,182 atkvæði í fyrsta til annað sæti (um 33% atkvæða) og mun því leiða annan lista flokksins í Reykjavík.

Þá var helgi Hjörvar í þriðja sæti, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom ný inn á lista og endaði í fjórða sæti og þá kom Skúli Helgason, fyrrv. framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar einnig nýr inn á lista og endaði í fimmta sæti.

Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður lenti í sjötta sæti listans, Steinunn Valdís Óskarsdóttir í sjöunda sæti og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra lendi í áttunda sæti.

Mörður Árnason kom þá í níunda sæti, Anna Pála Sverrisdóttir í tíunda, Dofri Hermannsson í ellefta og Sigríður Arnardóttir í tólfta sæti.

Samfylkingin hefur nú átta þingmenn í Reykjavík en þrír þeirra hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér á ný, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður flokksins, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður og Ellert B. Schram.

Þannig að miðað við núverandi þingmannafjölda yrðu Sigríður Ingibjörg, Skúli Helgason og Valgerður Bjarnadóttir meðal þingmanna flokksins.