„Ég átti von á að sjá eitthvað meira afgerandi,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, fráfarandi forsætisráðherra, um stjórnarsáttmálann sem þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, verðandi forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, undirrituðu á Laugarvatni í gær. Hún sagði í samtali við fréttastofu Bylgjunnar og Stöðvar 2 í hádeginu undrast fjölda nefnda sem boðaðar eru í sáttmálanum, hún hafi talið um 20 nefndir auk þess sem margt í sáttmálanum væri óljóst og ómarkvisst, að hennar mati.

Jóhanna er á svipuðu máli og Katrín Júlíusdóttir , sem lætur lyklana að fjármála- og efnahagsráðuneytinu í hendur Bjarna Benediktssonar. Hún sagðist í færslu á Facebook-síðu sinni í dag enn vera að telja nefndir, starfshópa og úttektir og kallaði formenn nýju stjórnarflokkanna Wild Boys.