Það er grundvallaratriði að við vinnum náið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sagði Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi forsætisráðherra, á blaðamannafundi á Hótel Borg, sem nú stendur yfir.

Hún sagði að Steingrímur J. Sigfússon, sem verður fjármála-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í nýrri ríkisstjórn, yrði staðgengill hennar sem forsætisráðherra.

Steingrímur sagði af þessu tilefni að Ísland væri í sárum eftir langt valdaskeið nýfrjálshyggjuaflanna. Hann sagði að ný ríkisstjórn gæti ráðist í það risaverkefni sem framundan væri til að leiða endurreisn Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem Vinstri hreyfingin grænt framboð sest í ríkisstjórn.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, tekur ekki sæti í ríkisstjórninni. Hún tók þó fram að hún væri ekki á leið út úr pólitík. „Ég ætla að einbeita mér að sjálfri mér á komandi vikum og svo flokknum þegar ég hef náð að safna kröftum," sagði hún.

Eitt af fyrstu verkefnunum að gera breytingar á Seðlabankanum

Jóhanna Sigurðardóttir sagði að eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnarinnar yrði að gera breytingar á yfirstjórn Seðlabankans. Það myndi koma í ljós fljótlega hvernig það yrði gert. Þá kom fram á fundinum að eftirlaunalögin svonefndu yrðu afnumin þannig að um ráðherra og þingmenn myndu gilda lífeyriskjör opinberra starfsmanna.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar verða tíu. Auk Jóhönnu og Steingríms verða í ríkisstjórninni Össur Skarphéðinsson, sem verður utanríkis - og iðnaðarráðherra, Ögmundur Jónasson, sem verður heilbrigðisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sem verður menntamálaráðherra og Kolbrún Halldórsdóttir, sem verður umhverfisráðherra.

Þá verður Ásta R. Jóhannesdóttir félags - og tryggingamálaráðherra og Kristján L. Möller  verður áfram samgönguráðherra.

Gylfi Magnússon hagfræðingur verður viðskiptaráðherra og Ragna Árnadóttir lögfræðingur verður dómsmálaráðherra.

Kosið verður til þings 25. apríl nk.

Verkefnalista nýrrar ríkisstjórnar má finna hér.