Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, gerir sér vonir um að ný ríkisstjórn Samfylkingar og VG verði mynduð um helgina. „Ég geri mér vonir um það en auðvitað getur alltaf eitthvað komið upp á sem tefur málin,” segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Þegar hún er spurð hvort flokkarnir hafi náð lendingu í Evrópusambandsmálum svarar hún: „Já, ég er bjartsýn á það. Meira get ég ekki sagt.”

Jóhanna segir að það sé ekki skrítið þótt það taki tíma að vinna að nýrri verkáætlun ríkisstjórnarinnar því verkefnin séu ærin. „Viðfangsefnin eru þau þyngstu og erfiðustu sem menn hafa verið að takast á við í áratugi,” segir hún. „Við viljum vanda vel til verka. Það er ekki tjaldað til einnar nætur í þessari ríkisstjórn. Við viljum vinna út kjörtímabilið.”

Hún bætir því við að landið sé ekki stjórnlaust á meðan viðræðurnar fari fram. „Það er meirihlutastjórn við lýði.”

Einn mánuður í efnahagsreikning bankanna

Unnið er í nokkrum hópum vegna stjórnarmyndunarviðræðnanna. Hóparnir fjalla m.a. um ríkisfjármál, atvinnumál, velferðarmál, lýðræðismál, sjávarútvegsmál, umhverfismál og auðlindamál, auk þess að fjalla um ESB-mál. Þingmenn Samfylkingar og VG starfa í hópunum en auk þess hafa formenn flokkanna haft samráð við sérfræðinga við mótun tillagna að aðgerðum í efnahagsmálum.

Þá stendur til að funda með aðilum vinnumarkaðarins á morgun. Jóhanna segir að reisa eigi stöðugleikann í efnahagsmálum í samráði við þá. „Við heyrum þeirra sjónarmið áður en við  klárum okkar verkáætlun.”

Jóhanna segir að eitt meginviðfangsefnið framundan sé að takast á við efnahags –og atvinnumál og þar með að endurreisa bankana. Hún segir að vonandi verði fljótlega hægt að ganga frá efnahagsreikningi bankanna. „Ég er að vona að við þurfum ekki meira en mánuð til að ljúka því máli,” segir hún.

Ekki búið að taka ákvörðun um utanþingsráðherra

Þá sé brýnt, segir hún, að gera áætlun um það hvernig losa eigi um gjaldeyrishöftin sem og að lækka stýrivexti. Ríkisstjórnin stuðli að stýrivaxtalækkun  með því að skapa forsendur til þess. Vonir séu bundnar við að verðbólgan verði komin niður í 2,5 % um næstu áramót.

Þegar Jóhanna er spurð hvort áfram verði starfandi utanþingsráðherrar svarar hún því til að ekki sé búið að taka ákvörðun um það. „Það hefur ekki verið ákveðið enn þá. Þeir hafa reynst mjög vel og ekki er útilokað að þeir verði áfram."