Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi fyrir stundu að það væri afar mikilvægt að breið samstaða hefði náðst um afgreiðslu Icesave-frumvarpsins.

Hún sagði að umræður og endanleg afgreiðsla málsins væri að mörgu leyti prófsteinn á íslensk stjórnmál enda kalt hagsmunamat sjaldan mikilvægara. „Sú  niðurstaða sem nú virðist vera í augsýn sýnir að við stóðumst það próf að mestu," sagði hún.

Önnur umræða um málið fer nú fram á Alþingi.

Jóhanna sagði að það væri ekki ofsagt að Icesave-málið væri eitt það erfiðasta sem íslensk stjórnvöld hefðu tekist á við á síðari tímum. Miklir hagsmunir væru í húfi fyrir íslenska þjóð. Með því að klára málið væri verið að ryðja úr vegi einum stærsta þröskuldinum fyrir endurreisninni.

Hún sagði að þær breytingartillögur sem meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefði mælt fyrir tryggðu betur og skýrðu betur öryggisákvæði sem lytu sérstaklega að friðhelgi og efnahagslegri framtíð þjóðarinnar svo skuldirnar yrðu henni ekki ofviða. Það væri mikilvægt.

Eftir aðra umræðu verður málinu aftur vísað til fjárlaganefndar þingsins. Málið þarf að fara í þrjár umræður áður en það fer í lokaatkvæðagreiðslu.