Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, segir að skoða verði öll möguleg úrræði til að fólk missi ekki heimili sín þegar greiðslubyrði af húsnæðislánum eykst.

„Við hljótum t.d. að fara í gjaldþrotalögin nú og endurskoða þau. Það verður að passa að fólk missi ekki heimili sín. Ef við tökum sem dæmi þá sem gætu misst húsið sitt, ef lánið þeirra er komið til Íbúðalánasjóðs þegar það getur ekki borgað af því, þá þarf ekki endilega að reka fólk út. Við getum t.d. leigt fólkinu húsnæðið áfram og þá býr það ennþá í því,“ sagði Jóhanna í þættinum Silfur Egils.

„Nú eigum við auðvitað að fara í stýrivaxtalækkun og þá er hægt að fara í dráttarvaxtalækkun. Vaxtaálagið á dráttarvöxtum er mun hærra hjá okkur en á hinum Norðurlöndunum og það ber að skoða,“ sagði Jóhanna.