Flestir, eða 64%, segjast bera mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, þar á eftir kemur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem 44% segjast bera mikið traust til og þá Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sem 40% segjast bera mikið traust til.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun Markaðs- og miðlarannsókna (MMR).

Þar kemur fram að Jóhanna er jafnframt sá einstaklingur sem fæstir segjast bera lítið traust til en 14% aðspurðra sögðust bera lítið traust til hennar. 28% sögðust bera lítið traust til Ólafs Ragnars og 33% sögðust bera lítið traust til Þorgerðar Katrínar.

Fram kemur í könnuninni að allir aðrir þeirra einstaklingar sem spurt var um njóta lítils trausts hjá fleirum en segjast bera mikið traust til þeirra.

Þannig eru 78% sem segjast bera lítið traust til Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, 68% segjast bera lítið traust til Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, 67% segjast bera lítið traust til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eiganda Baugs, og Valgerðar Sverrisdóttur, formanns Framsóknarflokksins, 57% segjast bera lítið traust til Gunnars Páls Pálssonar, formanns VR, og 52% segjast bera lítið traust til Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Nýja  Glitnis.

Aðrir sem spurt var um njóta lítils trausts hjá 38% til 50% svarenda.

Formenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar eru meðal þeirra sem njóta mests trausts samkvæmt könnuninni en 31% til 33% segjast bera mikið traust til þeirra þriggja.

Formenn stærstu flokkanna njóta afgerandi trausts meðal stuðningsmanna flokkanna

Í könnun MMR kemur fram að mikill munur mælist á afstöðu svarenda eftir því hvaða stjórnmálaflokka þeir segjast myndu kjósa ef kosið væri til Alþingis í dag.

Meðal þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru 87% sem segjast bera mikið traust til Geirs Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins, 75% segjast bera mikið traust til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, og 50% segjast bera mikið traust til Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, og Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, njóta jafnframt nokkurs trausts meðal Sjálfstæðismanna en 41% segist bera mikið traust til Davíðs og 40% segist bera mikið traust til Bjarnar.

MMR vekur athygli á því í skýrslu sinni að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, nýtur mikils trausts meðal 64% þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, nýtur mikils trausts meðal 49% sjálfstæðismanna og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, nýtur mikils trausts meðal 35% sjálfstæðismanna.

Jóhanna nýtur meira trausts eigin fólks en Ingibjörg Sólrún

Þá kemur fram að meðal þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna eru 83% sem segjast bera mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, 70% segjast bera mikið traust til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, 59% segjast bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, 43% segjast bera mikið traust til Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra og 39% segjast bera mikið traust til Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, nýtur mikils trausts meðal 52% þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna ef kosið væri til Alþingis í dag. Í skýrslu MMR kemur fram að það er nokkuð hærra hlutfall en segist treysta fjórum af sex ráðherrum Samfylkingarinnar.

Aðeins 0,51% þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna bera traust til Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra.

Sé litið til þeirra sem segjast myndu kjósa Vinstri græna eru 84% sem segjast bera mikið traust til Steingríms J. Sigfússonar, formanns flokksins, 65% segjast bera mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, og 52% segjast bera mikið traust til Ólafs Rangars Grímssonar, forseta Íslands.

Ekki birtar niðurstöður um alla einstaklinga

Í könnun MMR var einnig spurt um fjóra einstaklinga en þær niðurstöður eru ekki birtar í skýrslu MMR.

Þetta voru þau Þorvaldur Gylfason, hagfræðingur, Egill Helgason, fjölmiðlamaður, Vilhjálmur Bjarnason, formaður Samtaka fjárfesta og Agnes Bragadóttir, blaðamaður.

Úrtak rannsóknarinnar var 2464 einstaklingar á aldrinum 18 - 67 ára. Könnunin var framkvæmd dagana 2. – 5. september. Skýrslu MMR má nálgast hér.