Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Davíð Oddsson Seðlabankastjóri ræddu saman í síma í morgun um þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að endurskipuleggja Seðlabankann og ráða þar einn faglegan bankastjóra í stað þeirra þriggja sem þar nú sitja.

Hún vildi ekki fara nákvæmlega út í samtalið en sagði þó að hún hefði ekki fengið svör við því hvort Davíð hygðist verða við þeirri ósk ríkisstjórnarinnar að hann víki.

Jóhanna greindi frá þessu á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu sem nú stendur yfir.

Jóhanna sendi í gær bréf til bankastjóranna þriggja og óskaði eftir því að þeir færu sjálfviljugir úr starfi. Hún sagði á blaðamannafundinum að Davíð hefði hringt í sig í morgun en hann er staddur erlendis. Hann kæmi heim undir lok vikunnar. „Mér fannst á honum að hann  þyrfti aðeins lengri tíma til að skoða [þetta]," sagði Jóhanna.

Tólf mánaða starfslokasamningur kemur til greina

Ríkisstjórnin afgreiddi í morgun, til stjórnarflokkanna, lög um breytingu og endurskipulagningu á Seðlabanka Íslands. Jóhanna greindi frá því að fumvarpið felur m.a. í sér að einn faglegur Seðlabankastjóri verður skipaður, að undangenginni auglýsingu. Stefnt er að því að leggja fram frumvarpið á Alþingi í vikunni.

Jóhanna sagði aðspurð að hún vænti þess að Seðlabankastjórarnir myndu líta af ábyrgð á hlutina í því umhverfi sem við værum núna í og ganga til samninga um eðlileg starfslok. Spurð hvað eðlileg starfslok væru sagði hún að sér fyndist tólf mánaða starfslok ásættanleg.

„En þetta verður allt að koma í ljós," sagði hún.