Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í lokaræðu sinni á landsfundi flokksins í dag að Samfylkingin ætti að leggja áherslu á áframhaldandi stjórn jafnaðarmanna og félagshyggjufólks.

„Það er best fyrir íslenskt samfélagi nú í uppbyggingarstarfinu að Sjálfstæðisflokkurinn, sem stjórnað hefur hér í 18 ár með þeim afleiðingum sem nú blasa við - verði áfram á stjórnarandstöðubekknum að loknum næstu kosningum."

Jóhanna sagði að hinn 25. apríl næstkomandi yrði ljóst hvort Samfylkingunni yrði falið að halda áfram á þeirri braut sem nú hefði verið mörkuð.  „Við ætlum að vinna sögulegan sigur í komandi kosningum," sagði hún.

Jóhanna var hyllt með lófaklappi í lok ræðu sinnar og risu fundargestir úr sætum sínum.